Gönguleiðir eru margar í nágreni Hólaskjóls.
Gönguleiðir við Hólaskjól (kort)
í Álftavötn er 6-7 km ganga frá Hólaskjóli, framhjá fossum og um gljúfur Syðri-Ófæru.
Í Álftavötnum er ægifagurt, lindarlækir spretta undan hrauninu og renna í tær Álftavötnin þar sem gróðurinn nær að vatnsborðinu. Þar er einnig að finna náttúrulega steinbrú yfir Syðri-Ófæru. Gamalt gangnamannahús er þar og hefur það verið gert myndarlega upp af ferðafélaginu Útivist.
Eldgjá, sem er mikið náttúruundur, er skammt fyrir innan Hólaskjól.
Frá bílastæði í Eldgjá er vinsælt að ganga eftir botni hennar inn að Ófærufossi, hann var með fallegum steinboga sem hrundi fyrir allmörgum árum. Þangað eru um 2 km. Síðan er hægt að fara áfram inn Eldgjá og upp á Gjátind, sem rís 943 m. yfir sjávarmál við enda hennar. Frá tindinum er mikið og fagurt útsýni. Frá bílastæðinu eru um 7 km. upp á Gjátind.
Falleg gönguleið um afar sérstakt landslag er eftir Eldgjá til suðvesturs. Þá er gengið með fram Ströngukvísl eftir botni Eldgjár og upp að eða upp á Mórauðuvatnshnjúka, en þeir eru tveir. Milli þeirra er Mórauðavatn. Síðan má ganga niður í Álftavötn. Þessi leið er um 9-10 km. Svo er hægt að bæta við 6-7 km og ganga í Hólaskjól, (sjá gönguleið í Álftavötn).
Langisjór og Sveinstindur, um Skælinga í Hólaskjól. Þetta er mjög vinsæl gönguleið um einstaklega fallegt landslag.
Tillaga að göngu: Ekið inn að Langasjó. Þar er hús þar sem allt að 6 manns geta gist (pantað í Hólaskjóli). Daginn eftir er gott að njóta kyrrðarinnar og ganga síðan á Sveinstind, það er um 400 m hækkun. Útsýnið yfir Langasjó og Fögrufjöll til Vatnajökuls er óviðjafnanlegt. Síðan gengið niður með Skaftá að skála í umsjón Útivistar. Ath. panta þarf gistingu hjá þeim. Þaðan er gengið meðfram Skaftá um söndugar og mosavaxnar leiðir, um gil og gljúfur við Uxatinda og síðan fram Skælinga í Stóragil. Þar er skáli og hægt að panta gistingu þar hjá Útivist. Í Stóragili eru magnaðar hraunmyndanir frá Skaftáreldum.
Frá Stóragili er gengið á Gjátind og síðan niður í Eldgjá og Ófærufoss skoðaður.
Að lokum er gengið í Hólaskjól, farið í sturtu, grillað og slakað á fyrir svefninn.
Þessi leið er um 36-40 km.
Hægt er að panta gistingu og trússflutninga í Hólaskjóli.
Strútsstígur byrjar í Hólaskjóli. Þaðan er gengið í Álftavötn og síðan áfram með Syðri-Ófæru, um Ófærudal og inn með hlíðum Svartahnúksfjalla. Síðan liggur leiðin um Hólmsárbotna og að Strútslaug þar sem hægt er að fara í bað. Þaðan er gengið í Strútsskála, en panta þarf gistingu þar hjá Útivist. Þessi leið er um 27 km. Áfram er svo hægt að ganga til vesturs, t.d. í Hvanngil.